Blue Car Rental varð 15 ára þann 26. mars síðastliðinn. Af því tilefni var haldin vegleg veisla á aðalstarfsstöð fyrirtækisins við Keflavíkurflugvöll, þar sem bæði viðskiptavinir og starfsfólk nutu dagsins saman.
Um starfsstöðina við Keflavíkurflugvöll fer langstærsti hluti viðskiptavina, og þeim sem sóttu eða skiluðu bílum var boðið upp á kökur og kræsingar í veglega skreyttum útleigusal Blue Car Rental.
Starfsfólk frá öllum starfsstöðvum fagnaði einnig tímamótunum með sérstökum hátíðarhádegismat. Þar ávarpaði Þorsteinn Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Blue Car Rental, mannskapinn og fór léttlega yfir helstu atriði í sögu fyrirtækisins. Að því loknu steig grínistinn Ari Eldjárn á svið og sá um að kítla hláturtaugar viðstaddra með sínum einstaka hætti.
Blue Car Rental hefur vaxið gríðarlega frá stofnun árið 2010 og er í dag meðal stærstu og öflugustu ferðaþjónustufyrirtækja landsins. Það þótti því vel við hæfi að fagna þessum merku tímamótum með veglegri veislu og gleði bæði fyrir starfsfólk og viðskiptavini.