Starfsfólk Blue Car Rental tók virkan þátt í starfsgreinakynningu fyrir grunnskólanemendur á Suðurnesjum, sem haldin var þriðjudaginn 14. október í Blue höllinni í Reykjanesbæ.
Kynningarbás fyrirtækisins vakti mikla athygli og fékk jákvæð viðbrögð, þar sem nemendur fengu að fræðast um fjölbreytt störf hjá Blue Car Rental.
Fulltrúar Blue Car Rental sýndu nemendum fjölbreytta starfsemi fyrirtækisins. Allt frá þjónustu við viðskiptavini og daglegum rekstri til viðhalds, viðgerða og sérhæfðra starfa á sviðum fjármála, markaðsmála og tæknimála.
Margar spurningar bárust frá áhugasömum nemendum sem vildu vita meira um störf hjá Blue og hvernig starfið fer fram í raunveruleikanum.
Frá Blue Car Rental tóku sex starfsmenn þátt í kynningunni:
Berglind – fjármáladeild
Eiður – upplýsinga- og tæknisvið
Stefanía – markaðssvið
María – þjónustusvið
Ágúst – sprautu- og réttingaverkstæði
Ingiberg – bílaverkstæði
Blue Car Rental er stærsta íslenska bílaleiga landsins, með um 100 starfsmenn yfir árið. Hjá fyrirtækinu starfar fjölbreyttur hópur fólks með ólíkan bakgrunn og sérþekkingu, sem endurspeglar víðtæka starfsemi þess og hefur átt stóran þátt í árangri fyrirtækisins á undanförnum árum.
Starfsgreinakynningin er árlegur viðburður haldinn af Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum í samstarfi við Þekkingarsetur Suðurnesja. Þar fær ungt fólk á Suðurnesjum tækifæri til að kynnast þeim fjölmörgu störfum sem í boði eru í heimabyggð og styðja við markvissar ákvarðanir um framtíðarnám og starfsval.
Starfsfólk Blue Car Rental var afar ánægt með að fá tækifæri til að taka þátt í deginum og kynna fyrir nemendum þá fjölbreyttu möguleika sem felast í starfi hjá fyrirtækinu.


