Blue Car Rental hefur nú tekið í notkun nýjan og fullkominn sprautuklefa frá UZI Italia, sem styrkir vinnuferla og eykur afkastagetu á verkstæðinu verulega. Klefinn er liður í heildaruppbyggingu þjónustu Blue og styður við markmið fyrirtækisins um öryggi, einfaldleika og áreiðanleg gæði.
Framkvæmdir við verkstæðið hófust í mars og fólu meðal annars í sér flutning og endurskipulagningu á sprautuverkstæði. Rúðuverkstæðið var flutt í nýtt rými, réttingarverkstæði sett upp í sér rými og blöndunaraðstaða málningardeildar uppfærð. Í júní hófst undirbúningur fyrir grunnvinnu nýja klefans og í ágúst kom sérfræðingur frá UZI Italia til að leiða uppsetninguna. Verkstæðið var tekið í fulla notkun í byrjun september.
Með þessum breytingum hefur deildin nú tvo klefa þar sem hægt er að grunna, mála, slípa og baka í sama klefanum, ásamt þeim klefa sem þegar var til staðar. Þessar viðbætur tryggja meiri hraða, stöðugleika og betri nýtingu í daglegum verkefnum.
Ágúst Aðalbjörnsson, yfirmaður sprautuverkstæðis Blue Car Rental, segir framkvæmdina stórt framfaraskref:
„Við erum gríðarlega ánægð með nýja klefann og þær breytingar sem fylgdu honum. Þetta er góð viðbót fyrir teymið og skilar sér bæði í bættri vinnuaðstöðu og enn hærri gæðum á þeim bílum sem fara út til viðskiptavina. Þetta er fjárfesting sem mun nýtast Blue til langs tíma.“
Með þessari uppfærslu hefur Blue Car Rental skapað eitt besta vinnuumhverfi sem þekkist í þessum geira á Íslandi. Endurbætt aðstaða og háþróuð tækni tryggja að hver bíll sem fer út uppfylli ströngustu gæðakröfur og styður þannig við loforð Blue um örugga, trausta og áhyggjulausa upplifun.



